Ekkert bendir til þess að flugfélögum sé skylt að greiða fyrir hótelgistingu farþega sem komast ekki ferða sinna vegna verkfalls starfsmanna flugfélagsins.

Sem kunnugt er urðu nokkrar tafir á flugi Icelandair í gær vegna verkfalls flugvirkja.

Á síðu Neytendasamtakanna kemur fram að samkvæmt Evrópureglugerð eigi farþegar rétt á tiltekinni þjónustu komi til seinkunar eða aflýsingar flugs, s.s. máltíðir og hressingu, hótelgistingu (ef bíða þarf yfir nótt eftir fari), símakostnað og ferðir milli gististaðar og flugvallar. Neytendasamtökin segja að þetta sé þjónustu sem skylt sé að veita óháð því hver ástæða seinkunar eða aflýsingar er.

Um þetta er hins vegar deilt. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins telur Icelandair að hér sé um óviðráðanlegar aðstæður að ræða og því sé félaginu ekki skylt að bera kostnað vegna tafa eða óþæginda sem farþegar kunna að verða fyrir.

Skv. 1. gr. reglugerðar nr. 574/2005, sem sett er á grundvelli 3. mgr. 126. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir  er reglugerð ESB nr. 261/2004 í gildi hér á landi. Þar er gert ráð fyrir að farþegum skuli veitt tiltekin aðstoð á flugi sem seinkar, en bætur vegna aflýstra fluga.

Hins vegar segir í 3. mgr. 5. gr. reglnanna, en þar segir: „Flugrekanda ber ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir.“

Þess utan hafa lög og reglur Evrópusambandsins takmarkað gildi hér á landi nema þær séu samþykktar sérstaklega á Alþingi.