Áfram helst verð á flugi sögulega lágt, en verð á flugi báðar leiðir frá Keflavík mældist í september 44.709 krónur. Um er að ræða 1% hækkun frá ágústmánuði, sem var lægsta meðalverð á flugi sem Dohop hefur séð í verðkönnunum sínum.

Þetta kom fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins þar fyrirtækið vísar í fyrri spár sínar um að verðið myndi haldast stöðugt milli mánaða til þeirra áfangastaða sem samkeppni ríkir um.

Evrópa lækkar, Bandaríkin hækka

Mikill munur er þó á breytingum á meðalverði til Evrópu og Bandaríkjanna, verð til Bandaríkjanna hækka en lækka til Evrópu.

Meðalverð á flugi til Boston hækkar til að mynda um 20% og 24% til New York en verðið lækkar aftur á móti til Hamborgar, Barselóna og Amsterdam.

Spá hækkun í nóvember og desember

Fyrirtækið spáir því að í ár verði meðalverðþróunin svipuð og í fyrra, og gera þeir því ráð fyrir að verð á flugi haldist stöðugt eða lækki þegar líða tekur á október en fari síðan að hækka þegar líða tekur á nóvember og desember.

Við könnunina notar fyrirtækið sambærilega aðferð og Hagstofa Íslands en þá eru þrjár dagsetningar skoðaðar hverju sinni, sú fyrsta er eftir tvær vikur, önnur eftir fjórar vikur og þriðja eftir átta vikur.

Svo eru allir 7 dagar vikunnar skoðaðir með vikudvöl í huga og meðaltal hverrar viku er endanlegt verð fyrir það tímabil. Gert er ráð fyrir einum farþega sem flýgur báðar leiðir með eina ferðatösku og handfarangur sem er minna en 5 kíló að þyngd.