Hækkandi eldsneytisverð hefur áhrif á hagnað flugfélaga og verður það til þess að flugfélög munu hækka flugfargjöld. Þetta er mat Henry Harteveldt, ferðagreinanda og stofnanda Atmosphere Research Group. Hann telur að þetta muni hafa áhrif á áætlanir þeirra aðila sem hafa skipulagt ferðalög í sumar en ekki enn keypt flug. Greint er frá þessu á vef CNN.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá, hefur IATA, Alþjóðasamband flugfélaga, lækkað hagnaðarspá núverandi árs fyrir alþjóðlega flugiðnaðinn um 12%.

Mikil samkeppni í flugiðnaðinum ætti þó að koma í veg fyrir öfgafullar sveiflur í verði að mati Harteveldt. Hann telur að flugfélögin muni ekki hækka verðið um of, þar sem að þá myndi eftirspurn eftir flugsætum þeirra minnka.