Farþegum Air Iceland Connect fækkaði um 9% á milli ára á síðasta ári. Sætanýting dróst lítið saman milli ára en hún var 65,4% í fyrra en 65,9% árið 2017. Hins vegar drógust framboðnir sætiskílómetrar mjög saman á milli ára og fóru úr 215 kílómetrum árið 2017 niður í 180 kílómetra á síðasta ári sem er 16% samdráttur.

Fækkunin var hlutfallslega meiri á síðasta ársfjórðungi 2018 en þá fækkaði farþegum úr 80.400 árið 2017 niður í 69.600 í fyrra sem jafngildir 13% minnkun milli ára.

Þetta er í samræmi við fækkun farþega á innanlandsflugvöllum í desember í fyrra en þá fóru að jafnaði 1.615 farþegar á hverjum degi um aðrar flugstöðvar en Keflavíkurflugvöll. Í desember 2017 voru þeir hins vegar 1.805 talsins. Þetta er um 11% samdráttur milli ára.

Stjórnendur Icelandair Group boðuðu endurskoðun á starfsemi Air Iceland Connect en erfiður rekstur innanlands er einn af ástæðum mikils taps flugfélagsins á síðasta ári. Þess má geta að Alþingi samþykkti tillögu að nýrri samgönguáætlun fyrr í vikunni þar sem lagt er til að hið opinbera komi meira að flugsamgöngum innanlands.