*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 28. mars 2020 11:34

„Flugfélag er ekki banki“

Ætli ríkið að bjarga einkafyrirtækjum á borð við flugfélögum á ríkið að eignast hlut í þeim.

Ingvar Haraldsson
Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics.

Flugfélög eru meðal þeirra sem orðið hafa hvað harðast úti í efnahagssamdrætti síðustu vikna. Farþegaflug hefur tímabundið nær alfarið lagst af og kalla flugfélög víða um heim nú eftir að stjórnvöld veiti þeim neyðaraðstoð. Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknarseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu, segir að grundvallarmunur sé á björgun atvinnustarfsemi á borð við flugfélög og svo fjármálafyrirtæki sem bjargað var í síðustu heimskreppu fyrir rúmum áratug.

„Flugfélag er ekki banki. Ástæðan fyrir því að bönkum er bjargað er að annars truflast gríðarlega mikið af efnahagsstarfsemi. Fólk fær ekki borguð laun lengur og getur ekki nálgast sparnað sinn. Það hefur víðtækar efnahagslegar afleiðingar. Ef flugfélag verður gjaldþrota eyðileggjast flugvélarnar ekki. Það mun einhver annar kaupa flugvélarnar og halda áfram að veita þjónustuna. Gjaldþrot flugfélaga væri mjög tragískt, sér í lagi fyrir starfsfólkið, en eigendur félaganna keyptu hlut í þeim vitandi að í því fælist áhætta og þau gætu fengið skell.“

Jón segir að það geti verið gildar ástæður fyrir því að ríkið bjargi vissum fyrirtækjum sem teljist efnahagslega mikilvæg, hvort sem þau séu í fjármálakerfinu, flutningum, flugi eða öðrum greinum. „En ef ríkisvaldið ætlar að nýta peninga skattborgara til að bjarga einkafyrirtækjum á ríkisvaldið að eignast í fyrirtækjunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Jón Daníelsson