Flugfélag Íslands hefur skrifað undir samninga við fyrirtækið Medavia á Möltu um leigu á annarri af tveimur DASH 8 vélum sínum að því er kemur fram í fréttatilkynningu félagsins.

Medavia sérhæfir sig í flugi fyrir olíuvinnslufyrirtæki í Líbýu og hefur áratuga reynslu í þeim efnum.

Flugvélin er leigð á svokölluðum AMI (Aircraft, Maintenance, Insurance) samningi, þ.e. að auk þess að útvega vélina sér Flugfélag Íslands um viðhald og tryggingar.

Samningur þessi sem er til 6 mánaða er mjög ánægjulegur fyrir Flugfélag Íslands þar sem að með honum er enn frekar unnið að jöfnun árstíðasveiflna í rekstri félagsins. DASH 8 vélarnar sem keyptar voru í sumar eru aðallega hugsaðar í verkefni á Grænlandi sem að mestum hluta falla til yfir sumar mánuðina og því mikilvægt að tryggja verkefni fyrir þær yfir vetrarmánuðina líka.

Samningurinn tekur gildi frá og með 11. október og er gert ráð fyrir að vélinni verði flogið til Norwich á Englandi á morgun þar sem hún verður máluð í litum Medavia, en hún verður svo tilbúin í flug fyrir Medavia uppúr miðjum október segir í tilkynningunni.