„Á allra vörum“, söfnunarátak til kaupa á nýjum stafrænum röntgenbúnaði sem greinir brjóstakrabbamein, hefur nú staðið yfir í mánuð og gengið framar vonum. Fjármunum hefur verið safnað með því að selja bleikt varalitagloss frá Yves Saint Laurent merkt átakinu og hafa nú þegar selst hátt í 20.000 stykki.

Söfnunin mun halda áfram fram á haust og hefur Flugfélag Íslands nú bleikmerkt eina af Fokker 50 flugvélum félagsins til að halda merki átaksins á lofti í orðsins fyllstu merkingu.

Þetta er í fyrsta sinn sem flugvél í áætlunarflugi hér á landi fær slíka sérmerkingu til styrktar góðu málefni, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

„Við erum í skýjunum yfir þeim viðtökum sem átakið hefur fengið. Við renndum blint í sjóinn og töldum að það væri raunhæft markmið að selja 10.000 gloss. Það er því ótrúlegt að á fyrsta mánuðinum sé búið að selja nær tvöfalt það magn. En við erum hvergi nærri hættar. Þessi frábæri fyrsti mánuður hefur hvatt okkur enn frekar til dáða enda er það ærið verkefni að efla leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Við vonum því að almenningur og fyrirtæki muni áfram styðja við bakið á okkur í baráttunni,“ segir Gróa Ásgeirsdóttir, einn skipuleggjenda átaksins í tilkynningunni.

Nýr tækjabúnaður Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins eykur möguleika á að greina krabbamein í brjóstum á frumstigi en góður árangur í meðferð þess ræðst ekki síst af því að það greinist sem allra fyrst. Auk tækjakaupanna er markmið átaksins að leggja Krabbameinsfélaginu lið við að koma nýjum tækjum sem fyrst í gagnið og upplýsa, með ýmiss konar kynningarefni, hve alvarlegur sjúkdómur brjóstakrabbamein er.

Glossið verður til sölu næstu þrjá mánuði um borð í flugvélum Icelandair og í fríhafnarverslunum Flugfélags Íslands í Reykjavík og á Akureyri. Almenningur getur jafnframt keypt gloss hjá Krabbameinsfélagi Íslands, auk þess sem þau eru einnig seld fyrirtækjum sem vilja styrkja átakið með því að kaupa þau handa starfsfólki sínu.

Styrktaraðilar átaksins „Á allra vörum“ eru Heildverslun Halldórs Jónssonar, Saga Boutique og Flugfélag Íslands.