*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 17. mars 2015 08:22

Flugfélagið með nýja áfangastaði í skoðun

Nýjar Bombardier Q400 vélar Flugfélagsins munu stytta flugtíma milli Reykjavíkur og Akureyrar um fimm mínútur.

Ritstjórn
Fokkerarnir kveðja.
Haraldur Guðjónsson

Flugfélag Íslands hefur ákveðið að selja allar fimm Fokker 50 vélar félagsins og kaupa í þeirra stað þrjár Bombardier Q400 vélar, eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær. Nýju vélarnar taka 74 farþega í sæti, en Fokkerarnir tóku 50 manns.

Greint er frá því í Morgunblaðinu að nýju vélarnar muni leiða til þess að flugtími milli Reykjavíkur og Akureyrar styttist um fimm mínútur með tilkomu nýju vélanna. Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, segir í samtali við blaðið að vélarnar verði keyptar nýjar. Þá segir hann ýmsa möguleika opnast í leiðakerfi félagsins.

„Með nýju vélunum opnast okkur möguleikar, ekki bara í þeim löndum sem við störfum í nú þegar, þ.e. hér heima og á Grænlandi og í Færeyjum, því verið er að skoða aðra áfangastaði sem okkur sýnist að gætu verið áhugaverðir. Við vonumst til að fá niðurstöðu í þær athuganir á næstu mánuðum,“ segir Árni.