Flugfélag Íslands og Friðrik Adolfsson hafa fyrir milligöngu Saga Capital Fjárfestingarbanka skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á Twin Otter rekstri Flugfélags Íslands. Friðrik Adolfsson skrifar undir yfirlýsinguna fyrir hönd nokkurra fjárfesta, þar á meðal Norðanflugs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Saga Capital.

Þar kemur fram að Friðrik er núverandi sölustjóri leiguflugs hjá Flugfélagi Íslands og hefur meðal annars verið ábyrgur fyrir umfangsmiklum leiguverkefnum Twin Otter á Grænlandi. Hann mun láta af störfum hjá Flugfélagi Íslands og snúa sér alfarið að þessum rekstri.

„Á næstu dögum verður gengið frá endanlegum kaupsamningi og hefðbundin áreiðanleikakönnun mun fara fram. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið fyrir næstu mánaðarmót og að nýir aðilar muni taka við rekstrinum frá 1. júní næstkomandi. Kaupverð er trúnaðarmál,“ segir í tilkynningunni.

Um er að ræða tvær Twin Otter flugvélar og tengdan rekstur en helstu verkefni hafa verið áætlunarflug út frá Akureyri til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar, leiguverkefni á Grænlandi og viðhaldsverkefni í viðhaldsstöð félagsins á Akureyri. Um tuttugu manns vinna við rekstur Twin Otter vélanna á Akureyri, aðallega flugvirkjar og flugmenn.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, er ánægður með viljayfirlýsinguna og segir í tilkynningunni að hún sé skref í átt að því markmiði Flugfélags Íslands að starfsemin í kringum Twin Otter vélarnar haldist á Akureyri og geti enn frekar vaxið og dafnað í höndum nýrra eigenda.

Friðrik Adolfsson, sem fer fyrir hópi fjárfestanna, segir að mikil tækifæri til vaxtar felist í þessum rekstri. Mikil uppbygging eigi sér stað á Grænlandi sem kalli á aukin verkefni fyrir Twin Otter vélarnar. Þá sé verið að skoða fleiri vaxtarbrodda, meðal annars tengda fyrirhugaðri stækkun Akureyrarflugvallar.

Fyrirtækjaráðgjöf Saga Capital Fjárfestingarbanka hafði milligöngu um söluna sem ráðgjafi og fulltrúi Flugfélags Íslands.