Stjórnendur írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair brugðust þeim sem áttu miða með flugfélaginu en urðu strandaglópar fjarri heimkynnum sínum þegar flugsamgöngur féllu niður af völdum gossins í Eyjafjallajökli vorið 2010.

Þetta er mat Evrópudómstólsins sem vill að flugfélög hugi betur að viðskiptavinum sínum og borgi undir strandaglópa á sínum vegum.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian í dag kemur fram að kona sem flaug á vegum Ryanair til Faro í Portúgal þegar eldgosið hófst. Öskufall yfir Evrópu olli því að flugsamgöngur lágu meira og minna niðri á milil 15. og 23. apríl í hittifyrra. Konan átti bókað far heim 17. apríl og komst hvergi fyrr en 24. apríl. Konan var að greiða fyrir uppihald sitt í Portúgal þar til hún komst í loftið. Hún óskaði eftir því að Ryanair bætti sér upp útgjöldin. Af því varð ekki en hún fékk þau svör til baka að röskun á flugi næði ekki yfir tryggingu farþega.

Guardian hefur eftir Yves Bot, aðalmálaflutningsmanni Evrópudómstólsins, að flugfélög á borð við Ryanair hafi eftir Eyjafjallagosið hækkað flugfargjöld, sem m.a. eigi að standa straum af kostnaði við uppihald strandaglópa.