*

föstudagur, 5. júní 2020
Erlent 2. mars 2020 18:59

Flugfélög hætt við hundruð flugferða

British Airways og Ryanair draga úr flugferðum vegna minnkandi bókana í kjölfar útbreiðslu kórónavírusins.

Ritstjórn
Vélar British Airways bera stíliseraða útgáfu af breska fánanaum á stélinu.

British Airways og Ryanair hafa hætt við hundruð flugferða milli Bretlands og meginlands Evrópu sem og Bandaríkjanna vegna útbreiðslu kórónavírusins Covid-19 sem kenndur hefur verið við upprunaborgina Wuhan í Kína.

Ryanair hefur dregið úr fjölda flugferða sinna um 25%, sérstaklega milli Ítalíu og Bretlands, og segir félagið að það muni vera með takmarkaða ferðaáætlun mili 17. mars og 8. apríl, vegna minnkandi bókana á tímabilinu vegna þess að áhyggjur af vírusnum hafa aukist. Félagið hefur jafnframt sett hluta af flugmönnum og áhöfnum í frí.

Meðal flugferða sem British Airways hafa hætt við eru á milli Heathrow flugvallar við London og Ítalíu, Frakklands, Austurríki, Belgíu, Þýskalands, Írlands og Sviss, auk JFK flugvallar í New York, að því er segir í frétt Sky News.

Flugfélagið hefur einnig hætt við flugferðir milli Gatwock flugvallar og Ítalíu, Frakklands og Albaníu, sem og milli miðborgarflugvallarins London City til Ítalíu og Þýskalands. Í tilkynningu frá félaginu segir að fjöldi ferða verði sameinaðar á tímabilinu 16. mars til 28. mars.

Stikkorð: Heathrow Ryanair British Airways Gatwick