*

föstudagur, 25. júní 2021
Erlent 16. maí 2021 10:05

Flugfélög keppast um leitarhunda

Hertar reglur um skimanir í fraktflugi hafa leitt til mikillar eftirspurnar eftir leitarhundum og röntgenskimunarbúnaði.

Ritstjórn
Hollenski leitarhundurinn Ajax á flugvellinum í Vínarborg.
epa

Flugfélög og vöruflutningafyrirtæki keppast nú um leitarhunda til að standast nýjar reglugerðir frá Alþjóðaflugmálastofnuninni sem kveða um að skima þurfi allar vörur í fraktflugum. 

„Leitarhundafyrirtækin munu þurfa að tvöfaldast að stærð,“ er haft eftir Eric Hare, forstjóra Global K9 Protection Gorup, í frétt Financial Times. Hann gerir ráð fyrir að fjölga hundateymum sínum úr 125 í 225 fyrir lok júlí. Samkeppnisfyrirtækið Cargo Screening K9 Alliance hefur einnig fengið tvöfalt fleiri pantanir á fyrstu fimm mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra. 

Eftirspurn eftir lögregluhundum sem leita að sprengjum hefur aukist verulega vegna ótta um tafir á flutningum. Flugrekendur glíma nú við að finna hunda og röntgenskimunarbúnað í tæka tíð áður en reglugerðin tekur gildi í júlí. Breytingin er sögð valda sérstökum vandræðum meðal bandarískra fraktflugfélaga sem eiga þó nokkuð í land að standast nýju reglurnar.

Ýmsar efasemdaraddir eru uppi um hvort nægjanlegur tími sé til stefnu til að fjölga hundunum en alls tekur um 6-8 vikur og 100 þúsund dali, eða um 12,5 milljónir króna, til að þjálfa og senda hund og þjálfara á vettvang. „Það er til nóg af hundum til að sinna starfinu en við höfum ekki nægilega langt undirbúningstímabil,“ segir framangreindur Hara.

Hraðsendingarfyrirtæki líkt og UPS telja sig vera vel undirbúin fyrir júlí tímamörkin en minni fraktflugfélög og flugafgreiðslufyrirtæki gætu lent í meiri vandræðum.

Um er að ræða enn eitt vandamálið fyrir aðfangakeðjur, sem þegar eru strekktar vegna heimsfaraldursins og aukinnar eftirspurnar eftir alþjóðlegum flutningum. Einnig hefur stór hluti farþegaflugvéla, sem vóg um helming af fraktflutningum, verið kyrrsettur síðastliðið ár.

Sprengjuleitarhundur í þjálfun í bænum Ulmen í Vestur-Þýskalandi.