Það hefur líklega fátt verið rætt meira í íslensku viðskiptalífi en málefni flugmarkaðarins til og frá landinu á síðustu 12 mánuðum. Þrátt fyrir að Air Atlanta sé töluvert ólíkt hinum hefðbundnu flugfélögum þá segir Baldvin Már Hermannsson, forstjóri félagsins, að óhjákvæmilega hafi hann fylgst vel með þróun síðustu mánaða. Aðspurður segir hann að gjaldþrot WOW hafi verið dapurlegt, en rekstarumhverfi íslenskra flugfélaga sé erfitt, gengið óstöðugt og launakostnaður hár og því mikilvægt að flugfélög þekki sinn kostnað.

„Ég get ekki sagt að ég hafi séð fall WOW skrifað í skýin framan af. Auðvitað fylgdist maður með og vonaðist til að þetta myndi ganga upp, en svo fór sem fór með tilheyrandi höggi fyrir alla. Á móti kemur að rekstrarumhverfi flugfélaga er ekki auðvelt eins og sjá má á fjölda þeirra flugfélaga sem hafa orðið gjaldþrota á undanförnum árum í Evrópu. Samkeppnin er gríðarleg þannig þetta er ekki auðveldur rekstur að koma inn í.  Eins er ekkert sjálfgefið í því að halda úti rekstri leiguflugfélaga eins og Air Atlanta frá Íslandi, þar sem takmarkaðir loftferðasamningar, og nú síðast tvísköttunarsamningar, takmarka oft markaðsmöguleika félagsins í samanburði við aðra stærri, alþjóðlega samkeppnisaðila.“

Telur þú að það sé pláss fyrir annað farþegaflugfélag sem gerir út frá Íslandi?

„Ég get alveg trúað því að það sé pláss fyrir annan aðila á markaðnum þar sem samkeppni er öllum holl. Þannig lærirðu og skerpir á þínum rekstri. Ég hef alveg trú á því að hér muni koma inn annað flugfélag. En sú lexía sem við erum búnir að læra hjá Air Atlanta er þú verður að þekkja þinn kostnað, haga seglum eftir vindi og gera þetta á eins hagkvæman máta og þú mögulega getur. Þetta verður ekkert auðvelt fyrir þann aðila sem kemur hingað inn og ætlar að byrja upp á nýtt en ég vona að þeim gangi vel.“

Finna fyrir aukinni spennu í alþjóðaviðskiptum

Í maí síðastliðnum greindu alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, frá því að þau hefðu lækkað afkomuspá sína fyrir flugiðnaðinn í heild sinni um 6,5% frá upphaflegri spá. Var samdráttur í fraktflugi vegna aukinnar spennu í alþjóðaviðskiptum nefnd sem ein af aðalástæðum þess að spáin fyrir árið var lækkuð. Að sögn Baldvins hefur Air Atlanta fundið fyrir erfiðari aðstæðum í fraktflugi en segir að félagið búi þó að því að vera með langtímasamninga við sína viðskiptavini. „Þegar þú ert í alþjóðlegum fraktflutningum þá finnur þú fyrir þessu á eigin skinni. Viðskiptastríðið á milli Kína og Bandaríkjanna hefur áhrif. Flugfrakt hefur gefið eftir í heiminum það sem af er ári og við sjáum það alveg á okkar flutningstölum að það er ekki sami gangurinn og var fyrir sex mánuðum eða ári síðan. Við erum að sjá mánuði þar sem við erum að fara niður um 8–12% í fraktmagni, mismunandi á milli svæða. Eftirspurnin er því minni sem þýðir að það eru fleiri vélar að bítast um sömu flugin sem leiðir af sér að verðið fer niður. Við erum hins vegar með nokkuð tryggar lágmarkstekjur gagnvart okkar kúnnum og höfum þannig fest ákveðinn grunn, en þurfum að spila með hvað varðar verð í samningum.

Samkeppnin er gríðarlega hörð og ég minntist á að við höfum verið að fljúga með varahluti fyrir  BMW  og hluti þess leiðakerfis tengist  Mexíkó. Bandaríkjaforseti hefur talað fyrir viðskiptaþvingunum gagnvart  Mexíkó  og hluti þeirra snýr að bílaframleiðslu. Við finnum því beint fyrir þessu. Umferðin út úr Asíu hefur dregist saman, við erum að miklu leyti hættir að fljúga til Mexíkó í dag og þetta hefur áhrif flutningsstarfsemina í Bandaríkjunum. En við erum aftur á móti með okkar sérstöðu í Afríkuflugunum og þau eru að halda nokkuð vel.“

Nánar er rætt við Baldvin í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .