*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Erlent 3. apríl 2021 18:01

Flugfélög uggandi yfir eftirlitskostnaði

Flugfélög segjast ekki hafa efni á að sjá sjálf um eftirlit með bólusetningarskírteinum farþega sinna innan ESB.

Ritstjórn
Flugsamgöngur hafa að mestu leyti legið niðri frá því heimsfaraldurinn hófst. Til stendur að taka upp bóluefnaskírteini til að koma þeim af stað að nýju.
epa

Hugmyndir um kerfi bólusetningarskírteina á flugvöllum innan Evrópusambandsins – sem fælu í sér aðkomu og kostnað fyrir flugfélögin – hafa fallið í grýttan jarðveg.

Flugiðnaðurinn er í umfjöllun Wall Street Journal um málið sagður fagna hugmyndinni um skírteinin sem slík og notkun þeirra til að koma flugsamgöngum af stað að nýju. Flugfélögin hafi hinsvegar ekki efni á þeim viðbótarkostnaði sem eftirlit þeirra með slíku fæli í sér, né sektum sem legið gætu við því fyrir félögin ef það bregst.

Kerfinu er ætlað að byggja á skírteinum, ýmist rafrænum eða á pappír, sem munu innihalda strikamerki sem skanna má til að staðfesta bólusetningu og athuga skimunarsögu og fleira. Stefnt er að því að ýta því úr vör um miðjan júní næstkomandi.

Kerfið er sagt verða um margt sambærilegt við kerfi vegabréfaáritana í dag, sem ferðalangar sem koma utan frá sambandinu þurfa að framvísa. Að nafninu til er það hlutverk landamæravarða að fara yfir þær, en flugfélög hafa lengi gengið úr skugga um að allt sé í lagi í þeim efnum áður en farþegum er hleypt um borð í vélar þeirra, enda liggur 10 þúsund evra sekt við því í sumum Evrópulöndum að fljúga farþega til landsins sem ekki hefur tilskilda áritun.

Vestanhafs gáfu sóttvarnaryfirvöld það út í gær að fólk sem hefur verið að fullu bólusett geti nú ferðast án teljandi áhættu.