Flugfélög út um allan heim freista þess nú að heimta Boeing flugvélaframleiðandann um skaðabætur vegna tafa á afhendingu nýjustu framleiðslu Boeing, 787 Dreamliner.

Eins og greint var frá í gær tilkynnti Boeing að afhending 787 Dreamliner myndi tefjast um sex mánuði til viðbótar en félagið hefur frestað afhendingu þrisvar á aðeins sex mánuðum. Vélarnar verða því afhentar um 14-15 mánuðum á eftir áætlun en upprunalega var áætlað að afhenta vélarnar í maí á þessu ári.

Air New Zealand og Ari India tilkynntu strax í gær að flugfélögin myndu krefja Boeing um skaðabætur vegna þessa. Þá greindu All Nippon Airways, sem á að fá fyrstu vélina og Japan Airlines að þau væru nú að undirbúa kröfur á hendur Boeing.

Þá sagði ástralska flugfélagið Qantas, sem pantað hefur næst flestar vélar eða 65 stykki að félagið myndi krefja Boeing um skaðabætur.

Bandaríska flugfélagið Northwest sagði að félagið myndi notast við eldri vélar á meðan Boeing réði úr ráðum sínum. Um 50 flugfélög hafa pantað tæplega 900 flugvélar.

Allur gangur er á því hvort flugfélög geri áætlanir sínar út frá því að fá nýjar vélar afhentar. Þannig greindi Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair frá því í samtalið við Viðskiptablaðið í gær að Icelandair hefði ekki gert ráð áætlanir um að taka nýjar vélar inn í reksturinn þrátt fyrir að eiga fimm vélar pantaðar. Þannig hefur töfin á afhendingu vélanna lítil áhrif á rekstur Icelandair.