*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 18. apríl 2018 13:42

Flugfélögin ekki of stór til að falla

Skúli Mogensen segir að ef annað flugfélagið færi yrði það mikið högg sem tæki nokkur ár að ná jafnvægi eftir.

Ritstjórn
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Haraldur Guðjónsson

Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri Wow Air, segir íslensku flugfélögin ekki of stór til að falla að því er Túristi segir frá.
„Það yrði þó klárlega mikið högg ef annað flugfélagið færi og það tæki nokkur ár að ná einhverju jafnvægi. Það gefur augaleið,” segir Skúli.

Viðskiptablaðið fjallaði um þessa hættu í úttekt í lok mars, en það gæti þýtt á annað hundrað milljarða í tapaðar útflutningstekjur og dregið verulega úr hagvexti hér á landi. Framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans hefur þó ekki stórar áhyggjur af því að félögin lendi í greiðslufalli.

Skúli Mogensen gefur ekki mikið fyrir nýja afkomuspá Arion banka fyrir Icelandair, en þar segir að líkur séu á að ársbyrjun félagsins nú sé sú versta í rekstri félagsins í áratug. „Núna reynir á að hafa betri kostnaðarstrúktur en samkeppnisaðilarnir”, segir Skúli og tekur ekki undir með Arion banka að mikilvægt sé að fargjöld hækki.

Segir Norwegian hafa verið að gera góða hluti

Skúli segir fréttir um að móðurfélag British Airways hefði eignast 5% í Norwegian air og hefði áhuga á að eignast allt félagið í kjölfar rekstrarerfiðleika félagsins sem urðu m.a. vegna allt að 40% hækkunar á flugvélaeldsneyti, vera áhugaverðar.

Segir hann þetta staðfesta trú sína á að Norwegian hafi verið að gera góða hluti í því að bjóða upp á lággjaldaflug yfir Atlantshafið. Spurður hvort hann muni eiga allan hluta í Wow air í lok árs staðfesti hann fréttir þess efnis að hann væri byrjaður að íhuga að taka inn meðeigendur.

Ástæðan væri þó ekki fjárþörf heldur að áframhaldandi stækkun væri orðin mjög dýr vegna mikils umfangs félagsins.
„Þá er annað hvort að hægja á rekstrinum eða taka inn aukið hlutafé til að hafa sterkari stoðir. Miðað við umfang rekstrarins þá erum við með lágt eiginfjárhlutfall sem helgast af því að ég byggði félagið upp frá grunni.”