Viðbótarkostnaður íslenskra flugrekenda vegna kaupa á losunarheimilda gæti numið 2,6-7,9 milljörðum króna á ári á tímabilinu 2012-2020, verði tillögur um losun gróðurhúsalofttegundir í flugi felldar inn í tilskipun Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda eins og nú er í undirbúningi.

Í þeim tölum er miðað við 2,7% árlega aukningu í eldsneytisnotkun íslenskra flugfélaga, að því er fram kom í gær á fundi þar sem bráðabirgðaskýrsla stýrihóps um losunarheimildir á koltvísýringi í flugi var kynnt.

Kostnaðarauki 24-71 milljarður á átta ára tímabili

Gert er ráð fyrir á árið 2012 verði úthlutað 87% af losunarheimildum, 77% á tímabilinu 2013-2017 og engu eftir það.

Frá og með árinu 2018 verða flugrekendur því að kaupa heimildir.

Sveinn Agnarsson, hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, sagði að gert sé ráð fyrir að verð á losunarheimildum verði á bilinu 20-60 evrur tonnið. Muni þær kosta 20 evrur má áætla uppsafnaðan kostnað íslenskra flugrekenda á tímabilinu 2012-2020 um það bil 23,7 milljarða króna, en 33,6 milljarða króna muni tonnið kosta 30 evrur, en muni tonnið kosta 60 evrur gæti kostnaðurinn numið 71,2 milljörðum króna.

„Ef fullkomin samkeppni er til staðar lendir kostnaðaraukinn allur á farþegum,” sagði Sveinn.

Fargjöld innanlands gætu hækkað um 0,6-5%, fargjöld í millilandaflugi gætu hækkað um 1,8%-3,4% í viðskiptafarrými og 2,5-5% á almennu farrými. Slíkar verðhækkanir gætu að hans mati fækkað farþegum í svipuðu hlutfalli, allt að 40-80 þúsund farþegum í millilandaflugi. Sömuleiðis myndi flugfrakt hækka með tilheyrandi samdrætti í eftirspurn.

Tvöföldun flugumferðar spáð

„Við aðrar aðstæður, t.d. einokun eða fákeppni, lendir hluti kostnaðar á flugrekendum. Hlutur flugrekenda stækkar eftir því sem samkeppni er minni. Niðurstöður erlendra rannsókna gefa til kynna að verulegur hluti kostnaðar gæti lent á íslenskum flugrekendum.”

Hann sagði þó ekki forsendur til að spá nákvæmlega fyrir um hver mikill kostnaðaraukinn gæti orðið. Þá væri til þess að líta að hagræðing í flugrekstri gætu vegið upp á móti kostnaðaraukanum.