*

sunnudagur, 20. júní 2021
Erlent 8. júní 2021 07:02

Flugforstjórar gagnrýna ferðahöft

Kallað er eftir afnámi ferðahafta milli Bretlands og Bandaríkjanna í yfirlýsingu forstjóra flugfélaga og Heathrow flugvallar.

Ritstjórn
Farþegar á leið í sóttkví á Heathrow flugvelli.
epa

Forstjórar allra flugfélaga sem fljúga á milli Bretlands og Bandaríkjanna, auk forstjóra Heathrow flugvallar, gáfu í gær út sameiginlega yfirlýsingu þar sem kallað er eftir því að afnema takmarkanir á ferðalögum milli landanna tveggja. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Eins og sakir standa er nær öllum ferðamönnum frá Bretlandi bannað að ferðast til Bandaríkjanna og ferðamenn sem ferðast frá Bandaríkjunum til Bretlands þurfa að dvelja 10 daga í sóttkví.

Í yfirlýsingunni segir að framvinda bólusetningar í báðum löndum gefi tilefni til þess að opna á ferðalög milli þeirra. Það sé nauðsynlegt skref til þess að flýta fyrir efnahagsbata eftir faraldurinn. Hópurinn metur tap bresks atvinnulífs af ferðatakmörkunum um 23 milljónir punda á degi hverjum, eða sem samsvarar hátt í fjórum milljörðum íslenskra króna.

Engin rök fyrir takmörkunum

Shai Weiss, forstjóri Virgin Atlantic, er á meðal forstjóra sem tjá sig um málið en hann segir engin rök fyrir því að Bandaríkin séu ekki á grænum lista í Bretlandi. Nálgunin sé of varfærin og komi í veg fyrir að hægt sé að njóta uppskeru árangursríkrar bólusetningar í löndunum.

John Holland-Kaye, forstjóri Heathrow flugvallar, tekur í sama streng og segir loftbrúna milli landanna eitt mikilvægasta tannhjólið í hagkerfi heimsins. Hann segir vísindaleg gögn sýna fram á að ferðalög og viðskipti geti snúið aftur í fyrra horf með öruggum hætti. Með hverjum deginum sem líður sé störfum, lífsviðurværi og efnahagi vinnandi fólks stefnt í hættu að ástæðulausu.