Heildarfjöldi farþega Icelandair var um 250 þúsund í nóvember síðastliðnum, samanborið við 170 þúsund í nóvember í fyrra. Flugframboð í nóvember var um 96% af framboði í nóvember 2019, að því er kemur fram í nýbirtum flutningatölum flugfélagsins. Sætanýting í millilandaflugi var 73%, samanborið við 71% í nóvember 2021.

Farþegar í millilandaflugi voru 227 þúsund, samanborið við 151 þúsund í nóvember 2021. Fjöldi farþega til Íslands var 95 þúsund og frá Íslandi 49 þúsund. Tengifarþegar voru um 82 þúsund. Stundvísi í millilandaflugi var 91%.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var um 23 þúsund, samanborið við um 19 þúsund í nóvember í fyrra. Stundvísi var 87%. Sætanýting í innanlandsflugi var 76%, samanborið við 79% í nóvember 2021.

„Við höldum áfram að sjá jákvæðar tölur inn í veturinn og flugframboð er á svipuðum slóðum og það var árið 2019, fyrir heimsfaraldur. Það er einnig ánægjulegt að sjá að stundvísi er mjög góð, eða um 90% í innanlands- og millilandaflugi. Við höfum lagt mikla áherslu á að bæta stundvísi, sérstaklega í innanlandsflugi, og nú sjáum við árangur af þeirri vinnu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Seldir blokktímar í leiguflugi voru 11% fleiri en í nóvember í fyrra. Fraktflutningar minnkuðu um 28% miðað við sama tíma í fyrra. „Minni fraktflutningar í nóvember skýrast aðallega af aukinni notkun minni og sparneytnari Boeing MAX flugvéla í farþegaflugi sem gerði það að verkum að minna framboð var á fraktrými,“ segir í tilkynningunni.