Í gærkvöldi greindi Viðskiptablaðið frá því að Icelandair hyggist ætla að láta flugfreyjur sem starfa í hlutastarfi hjá fyrirtækinu velja hvort þær vilji ráða sig í fullt starf hjá fyrirtækinu eða vera sagt upp.

Flugfreyjufélag Íslands hefur nú sent félögum sínum bréf þar sem ákvörðun fyrirtækisins er harðlega gagnrýnd. Í bréfinu segir:

„FFÍ lítur á ákvörðunina sem aðför að áratuga vinnu stéttarfélagsins sem hefur miðað að því að flugfreyjur og flugþjónar hafi sveigjanleika til að vera í hlutastarfi. Ástæður þess að flugfreyjur hafa ráðið sig í hlutastörf eru af ýmsum toga og hafa flugfreyjur réttmætar væntingar til þess á grundvelli kjarasamnings. Í gegnum tíðina hefur fyrirtækið sjálft óskað eftir að flugfreyjur taki að sér hlutastörf þegar erfiðleikar steðja að til að koma í veg fyrir fyrir fjöldauppsagnir og þannig tryggt að þekking og reynsla tapist ekki frá félaginu.“

Félagið telur ákvörðun fyrirtækisins fela í sér mismunun á vinnumarkaði og vera brot á lögum um jafna meðferð. Þá bendir félagið einnig á það að aðgerðir fyrirtækisins ættu ekki að beinast aðeins gegn einni starfstétt. Félagið hefur boðað til félagsfundar á næstu dögum.