Enn stendur yfir fundur í kjaradeilu flugfreyja hjá Icelandair. Fundurinn hefur staðið yfir frá því klukkan ellefu í gærmorgun eða í um sólarhring. Samkvæmt upplýsingum frá Flugfreyjufélagi Íslands er ekki vitað hvort lausn sé í sjónmáli.

Samkvæmt frétt RÚV um málið hefur vinnustöðvun flugfreyja verið boðuð klukkan sex í fyrramálið svo framarlega sem samningar náist ekki. Má ætla að um sextíu áætlunarflugferðum Icelandair verði aflýst ef til vinnustöðvunar kemur og gæti það haft áhrif á ferðaáætlun um níu þúsund farþega.