Þýska risaflugfélagið Lufthansa varð að fella niður 207 ferðir í morgun eftir að slitnaði upp úr kjaraviðræðum við verkalýðsfélag flugfreyja- og þjóna flugfélagsins í Þýskalandi. Starfsmenn lögðu niður störf í átta klukkustundir í kjölfarið. Verkfallið hefur helst áhrif í Evrópu.

Verkfallið olli því m.a. að landslið Bosníu í körfubolta kemst hvergi eftir leik sinn í Lettlandi. Liðið á reyndar að spila gegn Hollandi á morgun.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir talsmanni Lufthansa að 360 ferðir á vegum flugfélagsins séu enn á áætlun.

Starfsmenn Lufthansa eru 120 þúsund. Stjórnendur flugfélagsins hafa unnið í hagræðingu á rekstri þþess og tilkynntu nýverið að fyrirhugað sé að segja upp allt að 4.500 starfsmönnum í þjónustustörfum. Við bætist launadeila við verkalýðsfélag flugfreyja- og þjóna sem snýr m.a. að því hversu hratt launahækkanir eigi að taka gildi.