Iceland Express er bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík. Flugfélagið hyggst sýna þann stuðning í verki og munu flugfreyjurnar skarta regnbogaslæðum og flugþjónarnir regnbogabindum til að minna á hátíðina. Þá verður dagskrárriti hátíðarinnar dreift um borð í vélum félagins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express.

Hinsegindagar í Reykjavík hefjast þann 7. ágúst næstkomandi og standa til 12. ágúst. Hátíðin er haldin árlega um allan heim en fyrstu göngurnar voru í New York og San Francisco í júní árið 1970. Á Íslandi hefur verið fjölmennt þegar hátíðarhöldin ná hámarki með gleðigöngu og fylgist fjöldi fólks árlega með.