Nýr kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair, sem skrifað var undir í nótt, kveður á um 3,3% hækkun grunnlauna.

Samningurinn gildir til 31. janúar 2009. Að þessu leyti er samningurinn áþekkur nýjum samningum flugmanna.

Samninganefndir Flugfreyjufélagsins og Icelandair hafa fundað stíft hjá ríkissáttasemjara undanfarna daga. Ritað var undir samning  í nótt, eins og áður sagði. Auk grunnlaunshækkana var samið um önnur atriði sem ekki fást uppgefin.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum og í framhaldi af því verður greitt um hann atkvæði.

Flugfreyjufélagið á enn ósamið við Flugfélag Íslands og Iceland Express.