Nú er í vinnslu lagafrumvarp sem kveður á um sameiningu Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í opinbert hlutafélag. Félagið hefði í upphafi sameiginlegar tekjur upp á tíunda milljarð króna og um 350 starfsmenn. Þrátt fyrir tafir sem hafa orðið vonast ráðuneytismenn til að hægt verði að leggja frumvarpið fram á vordögum.

Mörg álitamál eru varðandi sameininguna, svo sem framtíðarskipulagsmál á flugvallarsvæðinu og fyrirkomulagi rekstursins. Samgönguráðherra neitar því staðfastlega að verið sé að búa í haginn fyrir einkavæðingu Keflavíkurflugvallar.

Ef boðuð sameining Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli (FMSK) og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLE) í opinbert hlutafélag nær fram að ganga verður til fyrirtæki sem hefur í upphafi á launaskráðum 360 manns sem tilheyra tólf stéttarfélögum.

Fyrirtæki með sameiginlegar tekjur upp á 9,2 milljarða króna, miðað við rekstur þeirra á liðnu ári. Andvirði heildareigna myndi vera ríflega 20 milljarðar króna og skuldir á milli 11 og 12 milljarðar. Slíkt fyrirtæki myndi jafnframt annast rekstur á mannvirkjum NATO á flugvallarsvæðinu.

Nánari úttekt um málið er í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf formi hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .