Tímaritið Flugið fagnar nú tíunda tölublaðinu með því að vera fyrst íslenskra tímarita til að bjóða upp á rafræna útgáfu blaðsins fyrir iPad spjaldtölvur. Það er Flugmálaútgáfan sem gefur blaðið út og hefur gert frá upphafi. „Við erum stoltir af því að verða fyrst íslenskra tímarita til að búa til sérstakt app um útgáfuna,“ segir Guðmundur St. Sigurðsson hjá Flugmálaútgáfunni í tilkynningu.

Appið er fáanlegt á Apple App Store án endurgjalds. Með síðasta tölublaði fengu allir núverandi áskrifendur sendan kóða sem veitir þeim aðgang að síðustu tölublöðum Flugsins. Blaðið fjallar um atvinnu- og einkaflug á Íslandi, flugöryggismál og nýjungar í flugheimi ásamt því að flytja fréttir af öflugri grasrót flugsins hérlendis. Ritstjóri þess er Haraldur Unason Diego.