Litháinn Gediminas Žiemelis er stjórnarformaður og aðaleigandi Avia Solutions Group sem keypti íslenska flugfélagið Bláfugl í byrjun síðasta árs. Žiemelis hefur leitt félagið í ríflega áratug. Á því tímabili hefur það vaxið hratt og er Avia Solutions Group nú stærsta fyrirtæki Mið- og Austur-Evrópu í flugtengdri þjónustu með starfsstöðvar í 50 löndum.

Á árunum 2001 til 2005 stýrði Žiemelis litháíska félaginu UAB Zvilgsnis sem Creditinfo keypti árið 2006.

Fyrir ári, áður en faraldurinn lamaði fluggeirann, var auður Žiemelis metinn á 630 milljónir evra, um 102 milljarða króna, samkvæmt umfjöllun litháískra fjölmiðla. Žiemelis hefur verið áberandi í heimalandinu og styrkt marga af þekktustu íþrótta- og listamönnum Litháens.

Hann er mikill körfuboltaáhugamaður og hefur stefnt á að kaupa NBA-lið á næstu fimm árum. Žiemelis átti þátt í að fá bandarísku Ball-bræðurna, LiAngelo og LaMelo, til að spila með litháíska körfuknattleiksliðinu SkyCop. Þeir höfðu vakið nokkra athygli í bandaríska körfuboltaheiminum, ekki síst vegna kjaftfors föður þeirra.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út í desember. Hægt er að gerast áskrifandi hér .