Flugleiðin til Íslands var sú tíunda vinsælasta meðal farþega á flugvellinum við Kastrup í Kaupmannahöfn í síðasta mánuði. Þrátt fyrir það fækkaði dönskum ferðamönnum hér á landi auk þess sem Íslendingar bókuðu færri hótel í Kaupmannahöfn. Túristi greinir frá þessu.

Þar kemur fram að rúmlega hundrað þúsund farþegar hafi nýtt sér áætlunarflug Icelandair og Wow air milli Íslands og Kaupmannahafnar í júní og júlí. Fjölgaði farþegunum um 11,8% frá sama tíma á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá Kaupmannahafnarflugvelli fjölgaði farþegum hjá báðum flugfélögunum þessa mánuði.

Bæði Icelandair og WOW air bættu farþegamet sín í síðasta mánuði og miðað við fjölda þeirra ferða sem flugfélögin fóru í síðasta mánuði hafa að jafnaði 165 farþegar verið um borð í þotum Icelandair en 161 hjá WOW air. Í vélunum til og frá Kaupmannahöfn sátu hins vegar 170 farþegar að meðaltali.