Icelandair mun hefja áætlunarflug til San Francisco á vesturströnd Bandaríkjanna í maí á næsta ári. Á sama tíma tekur félagið í fyrsta sinn í notkun Boeing-767 breiðþotu í áætlunarflugi, en hún tekur 270 farþega. Sigurður Helgason, forstjóri Icelandair, segir að ákvörðun um þessa útvíkkun leiðakerfis Icelandair marka ákveðin tímamót í samgöngusögu landsins.

"Við erum með þessu flugi að opna nýja leið til og frá einhverri þekktustu og vinsælustu borg heims og með því að taka langdræga breiðþotu inn í áætlunarflugið og þróa tengistöð okkar á Keflavíkurflugvelli erum að leggja grunn að enn frekari útrás. Þessi ákvörðun um vöxt byggir á traustri stöðu fyrirtækisins og er í samræmi við þá stefnu okkar að efla starfsemina með arðbærum hætti og fjölga ferðamönnum á Íslandi."

Í tengslum við þessa ákvörðun verður Boeing 767 breiðþota leigð inn í áætlunarflugflota félagsins. Hún flytur 270 farþega, 30 á viðskiptafarrými og 240 á almennu farrými, eða um 80 fleiri en Boeing 757 flugvélarnar sem Icelandair notar í áætlunarflugi sínu. Flug beint til San Francisco tekur um 9 klukkustundir. Stjórntæki Boeing 767 flugvéla eru þau sömu og í Boeing 757 vélunum og því nýtist þjálfun flugmanna Icelandair til að fljúga báðum tegundunum.