Ekkert lát er á hækkunum á hlutabréfum í Flugleiðum í Kauphöll Íslands en í gær nam hækkunin 7,5% í um 280 m.kr. viðskiptum. Hækkunin nemur því 23% frá áramótum og 103% á síðustu tólf mánuðum. Flugleiðir birtu í fyrradag tilkynningu þess efnis að félagið hefði ásamt öðrum stofnað félag um kaup á flugvélum og leigu til þriðja aðila. Keyptar voru þrjár notaðar Boeing 737-500 flugvélar og hafa þær verið leigðar út til litháiska flugfélagsins Air Baltic Latwia til fimm ára.

"Gera má ráð fyrir að þessi starfsemi kunni að mynda nýja tekjustoð í rekstrinum og hugsanlega draga úr sveiflum í afkomu félagsins. Líklegt er þó að að aðrir þættir eigi stærri þátt í að bréf í Flugleiðum hafa hækkað svo mikið að undanförnu. Nærtæk skýring er að gengi easyJet lágfargjaldaflugfélagsins breska, sem Flugleiðir eiga rúmlega 10% í, hefur hækkað nær samfellt frá áramótum og nemur gengishagnaður Flugleiða þar af um 900 m.kr," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er einnig bent á að markaðsvirði Flugleiða hefur hækkað um 5,6 ma.kr. frá áramótum. Félagið kom á ný inn í Úrvalsvísitöluna um áramótin og áhugi fjárfesta var mikill er gefið var út nýtt hlutafé seint á síðasta ári. Nokkuð hefur því dregið úr mjög þröngu eignarhaldi á félaginu. Þá er rekstur samstæðunnar vel viðunandi m.v. erfiðar ytri aðstæður eins og hátt eldsneytisverð, lækkandi meðalfargjöld og hækkandi vexti. "Eins og fram kom í nýbirtri afkomuspá okkar þá voru verðmatskennitölur Flugleiða hagstæðar í samanburði við önnur félög í Kauphöllinni en þessar verðmatskennitölur tóku mið af gengi félagsins fyrir hækkanir síðustu daga. Verðmat á Flugleiðum er í skoðun," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.