Í danska viðskiptablaðinu Børsen í dag er viðtal við Sigurð Helgason, forstjóra Flugleiða, þar sem hann ræðir um fyrirhugaða innrás á skandinavíska markaðinn og að þeir hafi augastað á flugfélögunum Maersk Air og Sterling. Flugfélögin tvö hafa átt í erfiðleikum sökum mikils verðstríðs og segir Sigurður að ekki verði ráðist í kaup á félögunum fyrr en þau verði farin að skila hagnaði. Sigurður segist ekki skilja hvernig viðskiptaáætlun forstjóra Maersk Air eigi að virka, en að áætlun Sterlings sé mun áhrifaríkari og beittari. Hvorki Sterlings eða Maersk Air hafa opinberlega verið boðin til sölu en litið er á þau sem upplagða möguleika. Frá þessu er greint í Hálffimm fréttum KB banka.

Þars egir ennfremur að í Børsen sé Flugleiðum hrósað fyrir að vera eitt af fáum flugfélögum sem skilað hafa góðum hagnaði. Einnig er fjallað um að hagnaðarhorfur félagsins séu góðar næstu tvö árin þrátt fyrir slæm starfsskilyrði greinarinnar sökum verðstríðs og hás olíuverðs. Sigurður segir að leyndarmálið bakvið velgengni flugfélagsins sé að eftir hryðjuverkaárasina í Bandaríkjunum 11. september 2001 hafi þeir lært að vera sveigjanlegir svo að þeir geti bæði vaxið og skorið niður hratt.

Sigurður segir að velgengni flugfélagsins í framtíðinni verði tryggð með vexti sem muni gera því kleift að lækka kostnað hvers flugsætis enn frekar. Hann segir að það eina örugga í flugrekstri sé að sætaverð muni fara lækkandi og að þeir búist við 2-3% verðlækkun á næsta ári.
Þess má geta að Flugleiðir keyptu samtals 10,1% hlut í í breska lággjaldafélaginu easyJet í október og nóvember og segjast þeir íhuga að auka hlut sinn í fyrirtækinu.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.