Samkvæmt frétt sem birtist í Financial Times eru stjórnendur Flugleiða að undirbúa yfirtöku í Evrópu á árinu. Meginstarfsemi félaganna sem Flugleiðir horfir til er í flugrekstri, flugflutningum og ferðamannaiðnaði en Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða vildi ekki gefa upp nöfn á félögunum sem eru til skoðunar.

Í kjölfar hlutafjárútboðs Flugleiða, sem fram fór í nóvember síðastliðnum, hefur félagið verulegt svigrúm til athafna þrátt fyrir kaupin á hlutabréfum í Easyjet. Gengið á bréfum í Easyjet hefur hækkað um rúm 11% frá áramótum og má gera ráð fyrir að óinnleystur gengishagnaður Flugleiða vegna þess sé ríflega 1 ma.kr. "Á sama tíma hefur virði Flugleiða einnig hækkað um ríflega 1 ma.kr. en gengi bréfa í Flugleiðum hefur hækkað um 4% frá áramótum. Hækkun á virði Flugleiða er því í takt við hækkunina hjá Easyjet og því má leiða að því líkum að hækkun á gengi Easyjet hafi töluverð áhrif á virði Flugleiða. Samkvæmt fréttinni hafa stjórnendur Flugleiða ekki ákveðið hvort þeir komi til með að selja bréfin í Easyjet eða auka hlut sinn en ljóst er að ávöxtun þeirra er umtalsverð," segir í Vegvísi Landsbankans.