Flugleiðir hafa haslað sér völl á nýju sviði flugvélaleigu með stofnun fyrirtækis í samvinnu við Gunnar Björgvinsson og fleiri í Lichtenstein. Fyrirtækið hefur keypt þrjár notaðar Boeing 737-500 flugvélar af írska flugfélaginu Aer Lingus og leigir þær til litháiska flugfélagsins Air Baltic Latwia til fimm ára. Air Baltic er að 47% í eigu SAS og 53% í eigu lettneska ríkisins. Flugvélakaupin voru fjármögnuð af Íslandsbanka. Flugleiðir eiga 49% hlutafjár en aðrir samtals 51%.

Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, segir að á undanförnum árum hafi Flugleiðir byggt upp umtalsverða þekkingu á flugvélaviðskiptum og félagið hafi talið mikilvægt að nýta þessa þekkingu til að byggja upp nýja starfsemi innan Flugleiðasamstæðunnar.

"Félagið hefur öðlast nauðsynlega reynslu og þekkingu við kaup, fjármögnun og endurfjármögnun á annan tug flugvéla sem það hefur notað í rekstri dótturfélaga sinna. Að auki hefur samstæðan leigt inn fjölmargar flugvélar á alþjóðlegum markaði. Í þessum viðskiptum hefur félagið starfað með erlendum bankastofnunum og lögfræðifyrirtækjum og aflað sér umtalsverðrar þekkingar og viðskiptasambanda," segir Sigurður Helgason í tilkynningu frá félaginu.

Fyrir rúmu ári fóru Flugleiðir að leita að kauptækifæri í góðum flugvélum með það í huga að leigja þær áfram til þriðja aðila. Samvinna tókst við Gunnar Björgvinsson, sem hefur mikla reynslu af þessum markaði, um kaup og framleigu þeirra þriggja flugvéla sem að framan er getið. Sá samningur sem gerður hefur verið um leigu flugvélanna tryggir Flugleiðum mjög viðunandi arðsemi af kaupunum. Sigurður Helgason segir að tekist hafi gott samstarf við Íslandsbanka um fjármögnun flugvélakaupanna og það sé mjög ánægjulegt að sjá íslenskan banka koma svo sterkt inn í flugvélafjármögnun sem þessa.