Flugleiðir undirrituðu á föstudag samning við Boeing flugvélaverksmiðjuna um framleiðslu á tveimur Boeing 787 Dreamliner breiðþotum fyrir áætlunarflug Icelandair, og kauprétt á fimm slíkum vélum til viðbótar. Nemur heildarverðmæti samningsins 840 milljónum dollara, verði kauprétturinn nýttur, eða rúmlega 50 milljörðum króna. Þar af nemur verðmæti flugvélanna tveggja um 15 milljörðum króna en afhending vélanna er áætluð eftir 5 ár eða í apríl og maí árið 2010.

Haft er eftir Hannesi Smárasyni, stjórnarformanni Flugleiða, að í kaupunum felist ákveðin yfirlýsing af þeirra hálfu um vöxt í starfsemi Icelandair á næstu árum. "Í núverandi leiðakerfi okkar getum við flogið til Íslands frá markaðssvæði í Evrópu og Bandaríkjunum sem í allt telur um 700 milljónir manna, en Boeing 787 flugvélin getur flogið beint til Íslands frá nánast allri heimsbyggðinni, 6 milljarða manna markaði. Með því að tryggja okkur vélar af þessari gerð erum við því að opna ótal möguleika í framtíðarþróun félagsins."

Í tilkynningu félagsins kemur fram að Flugleiðir eru fyrsta evrópska áætlunarflugfélagið sem semur um kaup á Boeing 787 flugvélinni, en alls hafa 15 flugfélög víðsvegar um heim pantað 193 vélar af þessari gerð. Samsetning fyrstu 787 vélarinnar hefst hjá Boeing verksmiðjunum í Seattle í Bandaríkjunum á næsta ári, tilraunaflug hefst 2007 og vélin verður tilbúin í notkun 2008. Boeing 787 flugvélin tekur 220 til 280 farþega í sæti. Hún er 60 metra löng, vænghaf er 56 metrar og flugdrægni hennar er 15.700 km.