Flugleiðir undirrituðu í dag samning við Boeing verksmiðjurnar um kaup á 10 flugvélum af gerðinni Boeing 737-800 sem félagið ætlar að leigja áfram til flugfélaga í Kína og víðar. Í samningum felst einnig kaupréttur á 5 flugvélum til viðbótar. Smíði flugvélanna hefst á þessu ári og verða allar afhentar félaginu árið 2006.

Þetta er stærsti flugvélakaupasamningur sem Flugleiðir hafa gert. Heildarverðmæti þessara 10 flugvéla samkvæmt verðskrá er um 650 milljónir dollara, sem samsvarar 40 milljörðum íslenskra króna. Verði kaupréttur félagsins nýttur stækkar samningurinn í um 975 milljónir dollara eða um 60 milljarða króna. Að mati Flugleiða eru umtalsverð dulin verðmæti í samningnum við undirritun. Flugleiðir greiða liðlega 11 milljarða króna inná þessar flugvélar á þessu ári og eru þau viðskipti fjármögnuð af KB banka. Samningur þar að lútandi var einnig undirritaður í dag. Ráðgjafi Flugleiða í þessum viðskiptum er HSBC bankinn í Bretlandi.

Samningurinn er stórt skref í uppbyggingu á flugvélaleigu, sem er nýtt viðskiptasvið innan félagsins. Flugleiðir eru að setja á stofn sérstakt fyrirtæki innan samstæðunnar sem annast mun kaup, sölu og útleigu flugvéla og er þetta liður í útrás félagsins á nýja markaði. Halldór Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair, mun veita þessu nýja fyrirtæki forystu.

Hannes Smárason, stjórnarformaður Flugleiða, sagði við undirritun samninganna í dag, að félagið hefði náð afar góðri niðurstöðu um verð á þessum flugvélum í samningum við Boeing verksmiðjurnar. Félagið kæmi því á leigumarkaðinn í félagi við væntanlega samstarfsaðila með mjög samkeppnishæfar flugvélar. Markaðssetning verður í höndum flugvélaleigufyrirtækisins Sunrock, sem er í eigu japanska stórfyrirtækisins Sojitz. Sú vinna er þegar komin í fullan gang. Stjórnendur Flugleiða og Sunrock eru mjög bjartsýnir á að ná markmiðum um að ljúka samningum um útleigu vélanna á þessu ári.

Spurn eftir þessari tegund er mikil á markaðnum. Þannig liggja fyrir pantanir í nær alla framleiðslu Boeing á B 737-800 flugvélum árin 2006 og 2007 og er biðlisti eftir nýjum flugvélum þessarar gerðar. Mikill vöxtur er í flugrekstri í Kína og eftirspurn eftir flugvélum. Sunrock fyrirtækið er þegar í flugvélaviðskiptum á þeim markaði og er því í sterkri stöðu að sækja þangað inn með fleiri flugvélar.

Á undanförnum 6 vikum hafa Flugleiðir keypt eða verið þáttakandi í kaupum samtals 16 flugvéla. Til samanburðar hefur félagið á þessu ári 19 flugvélar í rekstri í leiðakerfi Icelandair og hjá Loftleiðum Icelandic og Flugleiðum Frakt. Félagið kynnti í síðasta mánuði samvinnuverkefni á sviði flugvélaleigu með Gunnari Björgvinssyni og fleirum þegar félagið tók þátt í stofnun fyrirtækis um að eiga og leigja til Air Baltic í Lettlandi þrjár Boeing 737-500 flugvélar. Það var fyrsta skref inná vettvang flugvélaleigu.

Í síðustu viku kynnti félagið næsta skref sem voru kaup á þremur Boeing 757 flugvélum. Ein þeirra verður leigð áfram til bresks leiguflugfélags en hinar tvær eru í rekstri Icelandair. Samningurinn sem undirritaður var í dag um kaup á 10 nýjum flugvélum er hins vegar lang stærsta skref Flugleiða á þessum vettvangi til þessa.

Boeing 737 flugvélarnar eru langvinsælustu farþegaþotur sögunnar. Alls hafa nú verið framleiddar 5.530 flugvélar af þessari gerð. Boeing 737 flugvélar taka á loft einhverstaðar í heiminum á 5,3 sekúndna fresti og ávallt eru að jafnaði 1.250 vélar af þessari gerð á lofti vítt og breitt um heiminn.