Flugleiðir hafa keypt 8,4% hlutabréfa í EasyJet, fyrir um 6,2 milljarða króna. "Þetta er liður í fjárfestingastefnu félagsins, sem felur m.a. í sér að fjárfesta í greinum þar sem félagið hefur sérþekkingu. Félagið lítur á kaupin í EasyJet sem langtímafjárfestingu. Flugleiðir eru fjárhagslega sterkt fyrirtæki og félagið vill nýta hagstæða ávöxtunarkosti á markaði sem félagið þekkir," segir Hannes Smárason, stjórnarformaður félagsins. "Við höfum því haft augun opin fyrir fjárfestingakostum tengdum flugrekstri, þar sem við teljum okkur hafa mesta þekkingu. Við teljum að rekstur EasyJet sé grundvallaður á góðri viðskiptahugmynd og eigi sér bjarta framtíð. "

EasyJet er annað af tveimur stærstu lággjaldaflugfélögum í Evrópu. Velta félagsins á heilu rekstrarári sem lauk 31. mars var tæplega 1 milljarður punda (um 127 milljarðar króna) og hagnaður fyrir skatta um 72 milljónir punda (um 9 milljarðar króna). Verð hlutabréfa í EasyJet eru í sögulegu lágmarki um þessar mundir. Verðmæti hlutabréfa hefur fallið um 2/3 frá áramótum en hefur verið nokkuð stöðugt undanfarnar vikur.

Flugleiðir er fjárfestingafyrirtæki í flugrekstri, ferðaþjónustu og almennum fjárfestingum og rekstur fyrirtækisins fer nú fram í 13 dótturfélögum.