Flugliðar hjá breska flugfélaginu British Airways hafa boðað til verkfallsaðgerða síðar í þessum mánuði samkvæmt frétt Guardian. Munu aðgerðirnar hefjast 16. júní næstkomandi og standa í fjóra daga. Ástæða aðgerðanna er sú að flugliðar félagsins telja sig vera á launum sem séu einungis rétt yfir fátæktarmörkum.

Vandamál flugfélagsins virðast því ætla að halda áfram en fyrirtækið þurfti að aflýsa yfir 800 flugferðum um síðastliðna helgi vegna tæknibilunar í bókunarkerfi sínu. Það er þó ekki reiknað með því að verkfallsaðgerðirnar muni hafa nærri því sömu afleiðingar og tæknibilunin um síðustu helgi.

British Airways hefur í fyrri verkfallsaðgerðum gefið það út að tryggt yrði að allir farþegar félagsins kæmust á áfangastað þótt það þýddi að sameina þyrfti flug og önnur flugfélög myndu reka vélar þeirra meðan á verkfallsaðgerðum stæði.