Flugmenn hjá franska flugfélaginu Air France hafa hafið vikulangt verkfall. BBC News greinir frá þessu.

Flugmennirnir hafa á undanförnum vikum mótmælt flutningi starfa hjá flugfélaginu til lággjaldaflugfélags til þess að auka samkeppnishæfni félagsins. Air France hvetur farþega til þess að breyta flugáætlunum sínum á meðan verkfallinu stendur, en verkfallið mun koma til með að hafa áhrif á meira en helming flugleiða félagsins.

Frederic Gagey, framkvæmdastjóri Air France, segir að verkfallið muni koma til með að kosta flugfélagið 10-15 milljónir evra hvern dag. Gera það samtals 70-105 milljónir evra standi verkfallið yfir í heila viku.