Steindór Ingi Hall, formaður samninganefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), segir fraktflugfélagið Bláfugl hafa þverbrotið kjarasamninga og íslenska vinnumarkaðslöggjöf. Félagið og forstjóri þess, Sigurður Ágústsson, hafi viðhaft fráleitar kröfur og virðist engan áhuga hafa á að ná samningum.

Sigurður var í viðtali í Viðskiptablaðinu fyrir þremur vikum, þar sem hann sakaði FÍA um óbilgirni, áróður og rangfærslur, og að vilja fórna störfum umbjóðenda sinna hjá Bláfugli til að styrkja samningsstöðu sína gagnvart Icelandair. Steindór segir Sigurð á móti fara með rangfærslur, útúrsnúninga og hálfsannindi.

Nýir starfsmenn ráðnir fyrir uppsagnirnar
Sem dæmi hafi FÍA aldrei slitið viðræðum, þótt þeim hafi verið vísað til Ríkissáttasemjara í kjölfar uppsagna allra 11 fastráðinna flugmanna félagsins á gamlársdag.

„Það var búið að boða næsta samningafund fljótlega upp úr áramótum. Við töldum okkur ekki hafa annarra kosta völ en að vísa viðræðunum til sáttasemjara eftir uppsagnirnar, en þeim var aldrei slitið. Við höfum mætt á alla þá fundi sem við höfum verið boðaðir á.“

Enn fremur standist fullyrðingin um að engir nýir flugmenn hafi verið ráðnir eftir uppsagnirnar enga skoðun nema í þröngum tæknilegum skilningi. „Þegar þeim er tilkynnt um uppsögnina er hann búinn að ráða fólk sem kemur til starfa um leið og uppsagnirnar taka gildi. Þannig skiptir hann þeim út strax daginn eftir.“

Hann hafnar algerlega þeim málflutningi Sigurðar að eðli rekstrar Bláfugls feli í sér að ekki sé hægt að nýta flugmenn jafn vel og í farþegaflugi. „Það eru allar forsendur fyrir því að nýta þetta starfsfólk betur en hann segist vera að gera, það er bara hans að gera það betur.“

FÍA opið fyrir ýmsum hagræðingum
Þrátt fyrir allt segist Steindór þó enn halda í vonina. Þótt afar langt sé á milli samningsaðila og viðræður hafi gengið erfiðlega, svo vægt sé til orða tekið, sé ekki útilokað að samningar náist þegar á hólminn er komið.

„Það er alltaf hægt að lenda samningum ef viljinn er fyrir hendi. Ég bara vona að á endanum leysi menn málin við samningaborðið. Við erum fullir af samningsvilja og höfum sýnt það við samningaborðið, og meðal annars verið opnir fyrir ýmsum hagræðingaraðgerðum. Það virðist hins vegar vera djúpt á því á hinum endanum.“

Steindór segir FÍA hafa boðið Bláfugli meiri eftirgjöf en velflest stéttarfélög myndu sætta sig við. „Við höfum alltaf verið tilbúnir að semja og við höfum lagst á með öllum atvinnurekendum núna í þessu árferði. Við höfum tekið þátt í því af meiri myndarbrag en flest öll önnur stéttarfélög hér á landi. En sumt er bara ekki hægt að gera, og það sem hann er að fara fram á fellur þar undir.“

FÍA hafi boðið samning upp á litlar sem engar launahækkanir næstu þrjú árin – sem félagið segir ígildi um 30% kostnaðarlækkunar samanborið við eðlilegar hækkanir í samræmi við almenna launaþróun – auk þess að ganga að ýmsum hagræðingarhugmyndum Bláfugls. „Við erum að bjóða manninum upp á róttækar breytingar á orlofskerfinu sem fylgja í einu og öllu hans eigin hugmyndum í þeim efnum. Þetta eru það miklar breytingar að þær einar og sér myndu skila fleiri prósentum í hagræðingu fyrir félagið.“

Á móti hafi tilboð Bláfugls vegið svo hart að kjörum félagsmanna að ekki væri nokkur leið að gangast við því. Steindór fullyrðir að í heild hafi þær hugmyndir falið í sér mun meiri skerðingu en Sigurður vildi meina í viðtalinu. „Við erum ekkert að tala um 35% hérna. Við erum að tala um miklu, miklu meira. Sem dæmi falla niður í þessu hjá honum allar tryggingar, sem eru gríðarlega mikilvægar flugmönnum.“

Lottóvinningur á laugardögum í meðallaunum Sigurðar
Steindór vill ekki ræða nákvæmar tölur yfir laun verktökuflugmanna hjá Bláfugli, sem hann segir í sjálfu sér aukaatriði, enda kveði lög skýrt á um að þau skuli ekki vera lægri en samkvæmt kjarasamningi. „Kjarasamningurinn er lágmarkslaun, bæði fyrir fastráðna og verktaka. Við viljum og höfum alltaf viljað að allir flugmenn séu á kjarasamningi, því þetta eru menn sem starfa á Íslandi og eiga því að hlíta reglum íslensks vinnumarkaðar.“

Hann tekur þó fram að laun nýráðins aðstoðarflugmanns á FÍA kjörum hjá Bláfugli séu á svipuðum slóðum og meðallaun á íslenskum vinnumarkaði, sem voru 754 þúsund krónur í fyrra fyrir fullt starf. „Miðað við launin sem Sigurður talaði um í viðtalinu þá er nú lottóvinningur á laugardögum inni í þeim tölum. Það verður líka að hafa í huga að þetta eru sérlærðir menn sem vinna einungis á nóttunni, og hafa farið í gegnum dýrt nám.“

Nánar er rætt við Steindór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .