Icelandair hefur óskað eftir því að gerðar verði breytingar á kjarasamningi flugfélagsins við flugmenn og forstjóra auk þess sem fallið verði frá fyrirhuguðum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. október næstkomandi. Þetta kemur fram í frétt Túrista þar sem vitnað er í bréf sem Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna sendi á félagsmenn sína sem flestir starfa hjá Icelandair. Þetta staðfesti svo Lára Sif Christiansen, framkvæmdastjóri FÍA í samtali við Rúv .

Í frétt túrista kemur fram að launahækkunin í haust feli í sér 3% hækkun á flugauka flugmanna og 2,5% hækkun á flugstjóraálagi en flugmenn Icelandair fengu 2,5% launahækkun í byrjun þessa árs. Í fréttinni er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group að áðurnefndur flugauki hafi átt að koma til vegna hagræðingaraðgerða sem samið hafi verið um í síðustu samningum. Vegna aðstæðna hafi hagræðingarinnar hins vegar ekki skilað sér m.a. vegna kyrrsetningar Max vélanna.

Þá kemur einnig fram að til viðbótar við niðurfellingu á hækkunum hafi Icelandair farið farið fram á að ýmis önnur atriði verði endurskoðuð t.d. vegna keypta frídaga, útkall á varavaktir og fleira.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku sagði Bogi Nils að félagið þyrfti að gera betur á mörgum sviðum varðandi launakostnað: „Samningarnir sem við erum með við áhafnir eru tiltölulega gamlir og það eru ýmis ákvæði í þeim sem hafa áhrif á nýtingu okkar starfsfólks. Leiðakerfi okkar er að þróast og við þurfum í samstarfi við starfsfólk og stéttarfélög að aðlaga samningana betur að nútímanum, núverandi leiðakerfi og menningunni almennt sem hefur breyst líka. Það jákvæða í stöðunni er að það er fullt af tækifærum til þess að finna lausnir sem koma bæði félaginu og starfsfólkinu vel.“