Flugmenn Icelandair fá hækkanir á bónusgreiðslum vegna eldsneytissparnaðar og stundvísi í nýundirrituðum samningi á milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Icelandair Group. Þetta staðfestir Örnólfur Jónsson, formaður samninganefndar FÍA, í samtali við Viðskiptablaðið.

Örnólfur segir félagið meta samninginn til um 8% hækkunar á ársgrundvelli umreiknaðan frá þeim tíu mánuðum sem hann gildir fyrir.  Launaliðurinn hækkar um 2,8% líkt og í flestum öðrum samningum. Hækkanir á umræddum bónusgreiðslum eru því veigamiklar en kveðið er á um lítilsháttar aðrar breytingar í samningnum.

Talsmaður Icelandair Group vísaði í tilkynningu til Kauphallarinnar þegar óskað var eftir upplýsingum um samninginn. Í umræddri tilkynningu segir að samningurinn sé í meginatriðum í takt við þá samninga sem gerðir hafa verið á vinnumarkaði á Íslandi á árinu. Sjá má tilkynninguna í heild sinni hér að neðan.

Samið við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA)

Icelandair Group og FÍA skrifuðu í nótt undir samning sem gildir til 30. september 2014.  Á samningstímanum munu Icelandair Group og FÍA vinna sameiginlega að langtímasamningi. Samningurinn er í meginatriðum í takt við þá samninga sem gerðir hafa verið á vinnumarkaði á Íslandi á árinu.  Samningurinn fer nú í kynningu hjá FÍA og rafræna kosningu sem tekur sjö daga.

Á þessu stigi er ekki hægt að áætla fjárhagstjón Icelandair Group vegna aðgerða FÍA í vinnudeilunni.

Þetta er á meðal efnis í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Gerð verður heimildarmynd um tónlistarmanninn Tómas R Einarsson
  • Ólin þrengist að fjármálakerfinu
  • Bankaskatturinn hefur áhrif á viðskiptavini
  • Skipulagsfræðingurinn Carles Marohn ræðir við Viðskiptablaðið um hliðstæður íslenskra og bandarískra skipulagsmála
  • Spár gera ráð fyrir að umfang íslamskrar bankastarfsemi muni tvöfaldast á fjórum árum
  • Reynsluakstur á Volkswagen CC
  • Verslunin Michelsen úrsmiðir hefur staðið af sér sjö kreppur. Frank Ú. Michelsen er í ítarlegu viðtali um verslunina
  • Nærmynd af Páli Ríkharðssyni dósent sem segir að fræðimenn verði að sinna ráðgjafastörfum
  • Huginn & Muninn eru á sínum stað auk Týs sem að þessu sinni fjallar um Evrópuþingið
  • Óðinn skrifar um eignir lífeyrissjóðanna
  • Þá eru í blaðinu pistlar, myndir og margt, margt fleira