Flugfélagið WOW air segist vilja endurvekja sjarmann sem einkenndi flug fyrir ekki nema tveimur áratugum síðan.

Útlit og yfirbragð flugvéla og flugáhafna verður að sögn Guðmundar Arnar Guðmundssonar „svolítið retró og töffaralegt“. Þaðan komi skírskotunin í Top Gun í auglýsingu félagsins en líkt og fjallað hefur verið um hér á vb.is byggir ný sjónvarpsauglýsing WOW air á tónlistarmyndbandi við höfuðstef Top Gun.

Guðmundur segir flugmenn verða í leðurjökkum svipuðum þeim sem voru í Top Gun og flugliða í því sem kalla mætti „Pan Am“ stíl. „Við viljum fá fólk til að brosa. Þannig að upplifunin af því að fara í ferðalag með okkur sé ánægjuleg og skemmtileg. Markaðsstefna WOW air er að vera öðruvísi, vera skemmtileg. Allt sem við gerum tekur mið af því.“

Á meðfylgjandi mynd má sjá Tom Cruise í myndinni Top Gun. Hvort leðurjakkar flugmanna WOW air verða eins og þessi skal ekki sagt en samkvæmt Guðmundi Arnari verður stíllinn í það minnsta svipaður.

Tom Cruise í kvikmyndinni Top Gun
Tom Cruise í kvikmyndinni Top Gun

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.