Það skýrist væntanlega á morgun hversu umfangsmiklar uppsagnir verða hjá Icelandair. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi félagsins, vill ekkert tjá sig um uppsagnirnar. Ekki heldur formenn Flugfreyjufélags Íslands og Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Flugfreyjur og flugmenn hafa verið boðuð til fundar hjá Icelandair á morgun, flugfreyjur- og þjónar fyrir hádegi en flugmenn eftir hádegi. Sigrún Jónsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins og Jóhannes Bjarni Guðmundsson, formaður FÍA, gera ráð fyrir því að mál muni skýrast á þeim fundum.

Þau vildu lítið tjá sig um málið að öðru leyti. Sigrún Jónsdóttir sagði þó að frétt Sjónvarpsins um að til stæði að segja upp allt að 150 flugfreyjum væri ekki rétt.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sagði í helgarblaði Viðskiptablaðsins að innan félagsins væri verið að skoða víðtækar hagræðingaraðgerðir. Ekki hefur náðst í hann í dag.