*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Erlent 8. ágúst 2019 12:51

Flugmenn Ryanair ætla í verkfall

Þrátt fyrir áætlaðar uppsagnir eftir að forstjórinn sagði félagið með 900 of marga flugmenn eru tvö verkföll boðuð.

Ritstjórn
Michael O´Leary er forstjóri, stofnandi og helsti eigandi Ryanair.

Stuttu eftir að írska flugfélagið varar við að það gæti þurft að segja upp um 900 starfsmönnunum í flugáhöfnum sínum hefur verkalýðsfélag breskra flugmanna félagsins boðað tvennar verkfallsaðgerðir í lok sumars.

Boðar British Airline Pilots Association (Balpa) tvö skammtímaverkföll, annars vegar 22. til 23. ágúst og hins vegar 2. til 4. september næstkomandi. Segir félagið að það hafi enga löngun til að eyðileggja ferðaáætlanir viðskiptavina en flugfélagið hafi áratugum saman neitað að gera samning við félagið.

Félagið segir aftur á móti að aðgerðirnar komi á einstaklega slæmum tíma, en í nýbyrtu uppgjöri kom fram að hagnaður félagsins á ársfjórðungnum minnkaði um meira en fimmtung, vegna hærri kostnaðar við eldsneyti og starfsfólk, auk lægra flugmiðaverðs.

Leikur að tölum

Verkalýðsfélagið segir deilurnar við félagið snúast um þætti eins og eftirlaun, tryggingar, mæðraorlof, laun og launatöflur. Eru 72% meðlima verkalýðsfélagsins hjá fyrirtækinu sagðir hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og 80% þeirra samþykkt verkföllin.

Ryanair segir hins vegar að færri en helmingur breskra flugmanna Ryanair séu í félaginu og af þeim hafi einungis 57% kosið með verkfallsaðgerðum. Sem vel að merkja er í samræmi við tölur verkalýðsfélagsins (0,72x0,80= 0,576) þó það sé sett fram öðruvísi af hálfu flugfélagsins.

Darrel Hughes framkvæmdastjóri mannauðsmála segir yfirflugmenn fá 180 þúsund bresk pund, eða sem samsvarar tæplega 27 milljónum íslenskra króna, í árslaun og þess vegna hafi velta flugmanna fallið niður í ekki neitt á síðustu mánuðum.

Hræddir við Brexit

„Á þessum erfiða tíma fyrir breska flugmenn sem sjá fram á uppsagnir og niðurskurð, ætti Balpa að vinna með Ryanair til að reyna að bjarga breskum flugmannastörfum, ekki leggja þau í hættu með illa tímasettum og dómgreindarlausum aðgerðum einungis 10 vikum áður en hættan vofir yfir á Brexit án útgöngusamnings,“ segir Hughes.

Í lok síðasta mánuði varaði Michael O´Leary starfsmenn við að þeir gætu þurft að sjá fram á niðurskurð og uppsagnir, og sagði hann félagið hafa 900 of marga flugmenn og flugliða.

Veikustu markaðir félagsins væru að hans mati Þýskaland vegna mikillar verðsamkeppni og Bretlands vegna óvissu um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Þess má geta að O´Leary var mjög virkur stuðningsmaður áframhaldandi veru Breta í sambandinu og gaf háar fjárhæðir í kosningabaráttu sambandssinna.

Kenndi forstjórinn kyrrsetningum Boeing 737 Max vélum félagsins, sem og að líkur hafi aukist á að Bretar fari að lögunum sem þingið hefur samþykkt um að útgangan verði, með eða án samnings 31. október næstkomandi, líkt og nýr forsætisráðherra landsins, Boris Johnson hefur heitið.