Kjarasamningur flugmanna við Icelandair hefur verið samþykktur með miklum meirihluta atkvæða, að því er fram kemur á vef Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Alls 167 flugmenn greiddu atkvæði um samninginn. Þar af greiddu 140 atkvæði með honum en 27 höfnuðu honum.

Samninganefnd FÍA skrifaði undir samninginn fyrir sitt leyti hinn 8. maí. Hann kveður á um 3,3% hækkun grunnlauna og gildir til 31. janúar 2009.

Í kjölfar undirskriftar var samningurinn kynntur félagsmönnum og hefur hann nú verið samþykktur í atkvæðagreiðslu, eins og fyrr segir.