„Þegar Landsbankinn vildi endurskoða samninginn var fyrirsjáanlegt að kostnaður myndi aukast. Þá ákváðum við að fara í útboð,“ segir Haukur Reynisson, formaður stjórnar Eftirlaunasjóðs félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA).

Eins og fram kom í netfréttum Viðskiptablaðsins á föstudag hafði Arion Banki betur í útboði um rekstur EFÍA. Um stóran sjóð er að ræða, 16,6 milljarða króna. Landsbankinn hafði séð um stýringu sjóðsins í 18 ár þegar ákveðið var að endurnýja samninga fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ekki liggur fyrir hversu stór hlutur sjóður EFÍA er af sjóðastýringu Landsbankans.

Gildandi samningur var hagfelldur eftirlaunasjóðnum og vildi Landsbankinn hækka gjöldin. Arion Banki, Landsbankinn og Almenni lífeyrissjóðurinn tóku þátt í útboði um rekstur sjóðsins og hafði Arion Banki betur.

Þá sagði í fréttinni á föstudag að kostnaður við rekstur EFÍA var umtalsverður í fyrra. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður sem fellur undir rekstur nam 14,6 milljónum króna á síðasta ári, samkvæmt ársuppgjöri. Það jafngildir tæpum 28 þúsund krónum á hvern greiðanda sjóðsfélaga sem eru 529 talsins. Til samanburðar kostaði rekstur Lífeyrissjóðs verslunarmanna hvern virkan sjóðsfélaga 8.300 krónur í fyrra. Heildareignir Lífeyrissjóðs verslunarmanna námu 310 milljörðum króna í lok síðasta árs. Engir starfsmenn eru hjá EFÍA og sá Landsbankinn alfarið um rekstur hans öll árin.

Sá fyrirvari skal hafður á að rekstur smærri sjóða er alla jafna meiri en þeirra sem stærri eru.

Haukur segir að við endurskoðun á sjóðastýringunni hafi allir liðir verið undir, auk kostnaðarins. Um viðskipti hafi verið að ræða með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi.

Í töflunni hér að neðan má sjá sjóð EFÍA í samanburði við aðra sjóði í lok árs 2009.

EFÍA
EFÍA