Aðeins ein flugvél mun fara um Keflavíkurflugvöll á jóladag líkt og Túristi greindi frá fyrir helgi. Sú er á vegum Easyjet og mun koma hingað til lands frá Genf í Sviss um kaffileytið og snúa til baka tveimur klukkutímum síðar. Ræsa þarf út starfsfólk flugstöðvarinnar til þess að sinna þessu eina flugi.

Meiri eftirspurn virðist vera í Sviss eftir millilandaflugi á jóladag heldur en hér á Íslandi, samkvæmt athugun Túrista . Þannig þarf til dæmis að borga 33 þúsund krónur fyrir flugmiða frá Genf til Keflavíkur á jóladag, en farmiðinn héðan þennan sama dag kostar ekki nema 12 þúsund krónur. Er því útlit fyrir að fleiri farþegar komi til landsins en fari frá því á fimmtudag kemur.