Meðalverð á flugi frá Keflavík er nú 44.045 krónur báðar leiðir, samkvæmt verðkönnun Dohop, og hefur það ekki verið lægra þann tíma sem fyrirtækið hefur framkvæmt verðkannanir á flugi. Spáir Dohop því að verð muni halda áfram að lækka fram á haustið.

Aldrei hafa fleiri flugfélög haldið uppi áætlunarflugi til og frá Keflavík og samkeppnin útskýrir að hluta þessar miklu lækkanir á verði, sem og áframhaldandi lágt verð á olíu.

Þegar verð á flugi til þeirra áfangastaða sem samkeppni ríkir á markaði er skoðað fyrir næstu vikur kemur fram áberandi lækkun milli mánaða. Heilt yfir er nú um 23% ódýrara að kaupa flugmiða en það var fyrir mánuði, samkvæmt upplýsingum Dohop. Munu þar ráða mestu miklar lækkanir á flugi til evrópskra borga eins og Mílanó, Kaupmannahafnar og Barcelona.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .