*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Innlent 4. nóvember 2014 11:28

Flugmiðinn til Óslóar oftast ódýrastur

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian er oftast með lægsta verðið til Óslóar.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Rúmlega fjórar af hverjum tíu flugvélum sem taka á loft frá Keflavíkurflugvelli fara til flugvalla við Kaupmannahöfn, Lundúnir eða Ósló og hefur framboð á flugi til þessara þriggja borga verið nokkru meira en til annarra áfangastaða. Til Lundúna er hægt að komast með EasyJet, Icelandair og WOW air, til Óslóar fara Icelandair, Norwegian og SAS en aðeins íslensku flugfélögin fljúga til Kaupmannahafnar.

Nú hefur Túristi borið saman fargjöld flugfélaganna til borganna þriggja, þar sem fundin eru fargjöld hvers flugfélags fyrir sig fjórum og tólf vikum fram í tímann. Samkvæmt síðustu verðkönnun Túrista er flugmiðinn til Óslóar ódýrari en til Kaupmannahafnar og Lundúna, líkt og verið hefur í sextán síðustu verðkönnunum.

Í ríflega tveimur af hverjum þremur tilfellum er það norska lággjaldaflugfélagið Norwegian sem er með lægsta verðið til Óslóar, en Icelandair og SAS bjóða þó einnig stundum upp á lægri fargjöld.