Í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia að áhrif af eldgosum á Keflavíkurflugvöll fari fyrst og fremst eftir eðli eldgossins og staðsetningu þess.

Nefnir hann að til dæmis hafði eldgosið í Holuhrauni tiltölulega lítil áhrif á flug vegna þess að úr því kom aðallega hraun, en hins vegar höfðu eldgosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum töluverð áhrif vegna mikillar fíngerðrar ösku.

Gæti þurft að loka Keflavíkurflugvelli

Stærstu áhrifin af eldgosum yrðu ef loka þyrfti flugvellinum, sem gæti komið til af tveimur ástæðum. Annars vegar ef loftrýmið fyrir ofan flugvöllinn geti verið það mettað af ösku ekki sé hægt að fljúga inn á völlinn, og hins vegar ef öskufall á flugvöllinn sjálfan sé það mikið að hann yrði ónothæfur.

Reynslan frá Eyjafjallajökli hafi þó valdið því að reglur um flug og eldgosaösku hafa tekið miklum breytingum.

„Sú síðasta og kannski sú stærsta tók gildi í nóvember 2014 og gengur út á að ábyrgðin um það hvort flugvélar fljúgi í svæðum þar sem spáð er ösku hefur færst frá flugstjórnaraðilum til flugrekenda,“ segir Guðni.

Sameiginleg áætlun um viðbrögð

Aðspurður um hvaða áætlanir séu til staðar ef til eldgoss kæmi svarar Guðni:

„Í fyrsta lagi er eldgosaáætlun sem gefin er út af Alþjóðaflugmálastjórninni ICAO.  Þessi áætlun er sameiginleg áætlun fyrir Norður Atlantshafið og Evrópu.  Út frá henni hefur Flugstjórnarmiðstöð Isavia unnið vinnu- og samskiptaáætlun sem er gangsett um leið og tilkynning um eldgos kemur fram.“